Blues express (1993-2003)

Blues express

Blússveitin Blues express starfaði í um áratug og var áberandi í blússenunni, höfuðvígi sveitarinnar var Blúsbarinn en sveitin lék þó miklu víðar bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Blues expreess átti rætur sínar að rekja til Akureyrar og var líklega stofnuð þar þótt þeir félagar gerðu síðar út frá höfuðborgarsvæðinu. Meðlimir sveitarinnar voru í upphafi Gunnar Þór Jónsson gítarleikari, Svanur Karlsson trommuleikari, Einar V. Einarsson bassaleikari og Gunnar Eiríksson söngvari og gítarleikari, sá síðast nefndi var forsprakki sveitarinnar og líklega stofnandi, og var í henni alla tíð á meðan aðrir komu og fóru.

Sveitin starfaði ekki alveg samfellt og stundum liðu margir mánuðir milli þess sem hún lék á opinberum vettvangi, þegar hún birtist eftir pásur var iðulega búið að skipta um liðsmenn í henni. Eftir eitt slíkt hlé, vorið 1997 voru til dæmis í henni auk Gunnars, Matthías Stefánsson gítarleikari, Atli Freyr Ólafsson bassaleikari og Valdimar Kristjánsson trommuleikari.

Blues express 1999

Blues express var um tíma eftir breytingarnar 1997 nokkurn veginn skipuð sömu meðlimum en Baldvin Sigurðarson bassaleikari kom þó inn í sveitina í stað Atla, Atli kom þó aftur inn í hana fljótlega. Árið 1999 voru í sveitinni Gunnar, Matthías, Ingvi R. Ingvason trommuleikari, Tómas Malmberg hljómborðsleikari og Árni Björnsson bassaleikari. Þá var Jóhann Ólafur Ingvason hljómborðsleikari í sveitinni um tíma en annars léku hinir og þessi með sveitinni á blúsuppákomum, þeirra á meðal má nefna Ástvald Traustason, menn léku jafnvel með henni óundirbúið. Um þetta leyti var Blues express að einhverju eða mestu leyti skipuð sömu liðsmönnum og hljómsveitin Kókos.

Blues express var starfandi árin 2001 og 2003 en ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um hverjir skipuðu sveitina þá. Síðan 2003 hefur ekkert spurst til hennar og er hér gert ráð fyrir að sveitin hafi þá hætt störfum.