Viridian green (1993-97)

Viridian green

Hljómsveitin Viridian green (einnig stundum misritað Veridian green) vakti nokkra athygli um miðjan tíunda áratug síðustu aldar með eins konar indí-rokki.

Sveitin sem var úr Mosfellsbænum var stofnuð á fyrri hluta ársins 1993 og fór að koma fram um sumarið við nokkra eftirtekt. Meðlimir hennar voru Kristinn Rúnarsson trommuleikari, Sigtryggur [?] gítarleikari, Karl Bjarni Guðmundsson (Kalli Bjarni) hljómborðsleikari, Magnús Guðmundsson bassaleikari og Haraldur Unnar Guðmundsson söngvari og gítarleikari.

Þannig skipuð átti Viridian green lag á safnplötunni Sándkurl árið 1994 og svo virðist sem fiðluleikari að nafni Gulli [?] hafi leikið með þeim þar, hann var þó líklega ekki meðlimur sveitarinnar.

Síðsumars 1994 gekk nýr gítarleikari, Valdimar Gunnarsson, til liðs við Viridian green en hann kom þá að öllum líkindum inn í stað Halla söngvara, Karl Bjarni var þá orðinn söngvari sveitarinnar.

Árið 1995 fór sveitin í nokkurra mánaða pásu og þá starfræktu flestir meðlimir sveitarinnar hljómsveitina Bananas, Vidirian green var þó endurvakin og þá hafði Sigurjón Ingibjörnsson gengið í sveitina en aðrir meðlimir hennar voru þá Karl Bjarni söngvari og hljómborðsleikari, Magnús bassaleikari, Kristinn trommari og Valdimar gítarleikari. Um það leyti hljóðritaði sveitin fjögur lög sem ætluð voru til útgáfu, það gerðist þó aldrei meðan sveitin starfaði en þau voru loks gerð aðgengileg löngu síðar á streymisveitum Internetsins sem stuttskífa.

Viridian green hætti störfum árið 1997.

Efni á plötum