Vonlausa tríóið (1989-92)

Vonlausa tríóið

Vonlausa tríóið starfaði um nokkurra ára skeið í Keflavík og urðu jafnvel svo frægir að senda frá sér plötu.

Tríóið mun hafa verið stofnað vorið 1989 og voru meðlimir þess alla tíð þeir sömu, Magnús Sigurðsson banjóleikari, Sverrir Ásmundsson kontrabassaleikari og Þröstur Jóhannesson gítarleikari. Allir þrír sungu.

Fljótlega eftir stofnun hófu þeir félagar að leika á pöbbum sem þá voru að spretta hér og þar upp enda bjórinn þá nýtilkominn til sögunnar hér á landi, tríóið lék mestmegnis á Suðurnesjunum en brátt færðu þeir sig einnig inn á höfuðborgarsvæðið.

Það mun svo hafa verið haustið 1990 að Vonlausa tríóið sendi frá sér fjögurra laga plötu með frumsömdu efni, í blaðaviðtali sögðu þeir aðdragandann hafa verið að þeir hefðu ætlað að kaupa míkrafónstatíf en endað á því að taka upp og gefa út plötu. Til stóð að platan yrði sjö tommu plata (vínyl) en þegar upplagið kom til landsins kom í ljós að um var að ræða tólf tommur, þ.a.l. þurftu þeir að láta prenta nýtt upplag af plötuumslaginu í réttri stærð.

Platan bar nafn sveitarinnar og var fjögurra laga, eitt laganna vakti nokkra athygli á sveitinni, Kotasæla – en það varð þekktur partíslagari víða um land. Á plötunni nutu þeir aðstoðar Helga Óskars Víkingssonar trymbils en upptökurnar fóru fram í Hljóðrita í Hafnarfirði undir stjórn Páls Guðmundssonar.

Vonlausa tríóið starfaði líklega til ársins 1992 en meðlimir sveitarinnar hafa síðan komið víða við í tónlistinni, þeir voru t.d. saman í hljómsveitinni Hinum guðdómlegu Neanderdalsmönnum.

Efni á plötum