West Winnipeg band (1907-12)

West Winnipeg Icelandic band

Snemma á tuttugustu öldinni starfaði lúðrasveit á Íslendingaslóðum í Kanada og var hún skipuð Íslendingum einvörðungu.

Sveitin sem bar heitið West Winnipeg band (einnig West Winnipeg Icelandic band) mun hafa starfað um fimm ára skeið og hér er giskað á að hún hafi verið stofnuð 1907 og því starfað til 1912.

Fyrir liggur að sveitin kom fram opinberlega í fyrsta sinn í maí 1908 og var þá skipuð um þrjátíu manns, upphaflegur fjöldi var tuttugu og sex.

Stofnandi og stjórnandi West Winnipeg band var Steingrímur Kristján Hall tónskáld, kórstjórnandi og organisti sem var mikils metinn meðal Íslendinganna, og stýrði hann sveitinni öll fimm árin sem hún starfaði. Sveitin kom margsinnis fram þann tíma í Winnipeg og nágrannabyggðum s.s. í Gimli, en hún naut mikillar virðingar og vinsælda. West Winnipeg band lék mestmegnis erlenda tónlist en einnig kom fyrir að íslensk lög fengu að hljóma, m.a. eftir stjórnandann.