Gömlu brýnin [2] (1989-98)

Gömlu brýnin

Hljómsveitin Gömlu brýnin fór mikinn á dansleikjum á síðasta áratug síðustu aldar og náði meira að segja að koma út stórsmelli ásamt Bubba Morthens.

Sveitin var stofnuð haustið 1989 af nokkrum gömlum brýnum í tónlistarbransanum svo nafn hennar átti prýðilega vel við, það voru þeir Sigurður Björgvinsson bassaleikari, Halldór Olgeirsson trommuleikari, Sveinn Guðjónsson hljómborðsleikari og Björgvin Gíslason gítarleikari sem skipuðu sveitina en allir skiptust þeir á að syngja.

Gömlu brýnin léku svokallaða gullaldartónlist, rokk frá sjötta og sjöunda áratugnum mestmegnis, og léku víðs vegar á dansleikjum bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, sveitin varð t.d. svo fræg að spila á litla pallinum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sumarið 1990. Sveitin starfaði ekki alveg samfleytt og vorið 1992 hætti hún um nokkurra mánaða skeið þegar Sigurður bassaleikari sneri sér að öðru, hinir félagarnir stofnuðu nýja sveit ásamt Jóni Ólafssyni bassaleikara og tóku upp nafni Völuspá. Sú sveit starfaði hins vegar einungis í fáeina mánuði áður en þeir félagar tóku upp gamla nafnið og störfuðu eftir það nokkuð samfleytt til ársins 1998.

Gömlu brýnin

Vorið 1993 höfðu Gömlu brýnin farið í nokkurra vikna pásu en birtust aftur um sumarið með nokkuð breytta liðsskipan. Páll E. Pálsson var þá orðinn bassaleikari í stað Jóns og einnig var Björgvin gítarleikari horfinn á braut en Þórður Árnason kominn í hans stað. Einar Bragi Bragason saxófónleikari var jafnframt kominn í sveitina en hann staldraði ekki lengi við og tók Kristinn Svavarsson við hans hlutverki sem blásari Gömlu brýnanna, þá sáu Halldór og Sveinn orðið alfarið um sönginn. Undir lokin kom sveitin stopulla fram enda var þá orðinn lítill markaður fyrir fullmannaða sveit í þessum bransa þegar margir einyrkjar voru farnir að skemmta fyrir markhóp þeirra, einir með skemmtara. Um það leyti voru þeir Halldór og Sveinn einmitt farnir að starfa saman tveir undir nafninu Svenni og Halli og síðar undir heitinu Svenson og Hallfunkel.

Frægðarsól Gömlu brýnanna reis hvað hæst í kringum miðjan tíunda áratuginn, árið 1994 skemmti sveitin nokkuð á Eiðistorgi þar sem KR-ingar héldu fögnuði sína og í tengslum við þá spilamennsku hófst samstarf við Bubba Morthens, það samstarf leiddi til stuðningsmannalagsins Við erum KR, sem var frumflutt á 95 ára afmælisfögnuði félagsins. Lagið var síðan gefið út á plötu 1995 og naut heilmikilla vinsælda um það leyti, það hefur komið út á fáeinum safnplötum síðan. Gömlu brýnin höfðu einnig átt lag á safnplötunni Börnin heim (1992) en annars voru ábreiður uppistaðan í prógrammi sveitarinnar.

Þó svo að Gömlu brýnin hafi hætt störfum undir lok aldarinnar hafa þeir stöku sinnum verið endurvaktir og leikið á dansleikjum einkum í Hafnarfirði, t.d. 2007 og 08.