Fendrix (2002-03)

Fendrix

Hljómsveitin Fendrix var meðal keppenda í Músíktilraunum Tónabæjar og Hins hússins vorið 2003 en sveitin hafði að líkindum verið stofnuð haustið á undan í Setbergsskóla í Hafnarfirði.

Meðlimir Fendrix voru þeir Sigurður Ragnar Haraldsson gítarleikari, Kristinn Þór Kristinsson bassaleikari, Páll Fannar Pálsson söngvari og gítarleikari, Brynjar Björn Ingvarsson gítarleikari og Friðrik Dór Jónsson trommuleikari. Fendrix komst í úrslit Músíktilraunanna, ekki þó á verðlaunapall en sveitin vakti líklega mesta athygli fyrir að skarta þremur gítarleikurum. Síðar hefur nafn hennar verið dregið fram í dagsljósið fyrir að söngvarinn Friðrik Dór var meðlimur hennar. Sveitin starfaði í nokkra mánuði eftir Músíktilraunir.

Fendrix kom aftur saman síðla árs 2010 og kom eitthvað fram þá, m.a. ásamt hljómsveitinni Sign en sveitin hafði löngu fyrr hitað upp fyrir Sign á útgáfutónleikum þeirrar sveitar.