
Feedback
Dúettinn Feedback var skipaður fimmtán og sextán ára tónlistarmönnum frá Stykkishólmi sem gáfu út eina plötu sumarið 1998.
Feedback var stofnuð haustið 1997 í Stykkishólmi þegar þeir félagar Sigmar Hinriksson og Hrafnkell Thorlacius hófu að gera tónlist undir því nafni. Fljótlega söfnuðust frumsamin lög í sarpinn og þeir hófu upptökur strax um haustið í félagsmiðstöðinni Fellahelli í Breiðholti þar sem þeir fengu aðstöðu en kláruðu þær síðan í Hólminum þegar félagsmiðstöðinni þar áskotnuðust upptökugræjur.
Platan sem hlaut titilinn Squall kom út um sumarið 1998 og um það leyti voru þeir félagar að leika nokkuð á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu. Platan fór hins vegar ekki hátt og engin gagnrýni virðist hafa birst í fjölmiðlum um hana.
Feedback virðist hafa hætt störfum þá um sumarið.