Fitl (1998-99)

Fitl

Hljómsveitin Fitl vakti nokkra athygli í lok síðustu aldar en sveitin sendi þá frá sér fjögur laga smáskífu.

Fitl birtist fyrst á sjónarsviðinu á tónleikum í Hinu húsinu í febrúar 1998 en ekki liggur fyrir hversu lengi hljómsveitin hafði þá verið starfandi. Sveitin var sögð vera af Skaganum en mun hafa starfað á höfuðborgarsvæðinu og reyndar munu meðlimir hennar hafa komið frá Akureyri og Borgarnesi auk Akraness. Meðlimi Fitls voru þau Anna S. Þorvaldsdóttir söngkona og sellóleikari, Sigurður Árni Jósefsson bassaleikari, Doddy [?] gítarleikari, Þorsteinn Hannesson trommuleikari og Valgerður Jónsdóttir söngkona.

Fyrir jólin 1998 sendi sveitin frá sér fjögurra laga smáskífu sem vakti þónokkra athygli og spilaði hún nokkuð opinberlega um það leyti sem platan kom út. Hún hét Undur og hlaut misjafna dóma, ágæta í DV, þokkalega í Degi og Morgunblaðinu en fremur slaka í tímaritinu Fókusi.

Fitl starfaði í fáeina mánuði eftir útgáfu plötunnar af því er virðist, lék á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu um sumarið 1999 en eftir það virðist ekkert heyrast frá henni.

Efni á plötum