Draumur

Draumur
(Lag / texti: Bergþóra Árnadóttir / Steinn Steinarr (Aðalsteinn Kristmundsson))

Þú komst af akri þínum, þá var kvöld
og það var ekki neinu fleiru að sinna.
Þú settist hljóðlátur við húss þíns eld
og horfðir milt á leiki barna þinna.

Og allt var kyrrt og rótt, þig sótti svefn.
Þú sofnaðir á næstum augabragði
og dreymdi að þú gekkst á akur þinn
og einhver vegfarandi kom og sagði:

Manstu þann dag, eitt löngu liðið vor?
Í lágum dyrum kotsins stóðstu feiminn
og heyrðir blóð þitt þjóta þyrst og ung.
Og það var köllun þín að sigra heiminn.

Svo hélstu af stað sem hjartað sagði þér.
Þitt hugrekki gat enginn máttur þvingað.
Þig skorti hvorki vit né þrek í þraut
og þú ert ekki kominn lengra en hingað.

Þá hrökkstu upp, og hljótt var kringum þig.
Og húmið skyggði silfur þinna hára
sem gamalt ryk. Það var sem værir þú
að vakna upp af svefni þúsund ára.

[m.a. á plötunni Bergþóra Árnadóttir – Í seinna lagi]