Þrjú ljóð um lítinn fugl

Þrjú ljóð um lítinn fugl
(Lag / texti: Bergþóra Árnadóttir / Tómas Guðmundsson)

I
Það vorar fyrir alla þá sem unna
og enginn getur sagt að það sé lítið
sem vorið hefur færst í fang, og skrítið
hve fljótt því tekst að safna í blóm og runna.

Og listamenn með litakassa og bretti
senn labba út í náttúruna og mála
en ungu blómin drekka dögg og skála
til dýrðar sínum yndislega hnetti.

Ég þekki líka lind við bláan vog,
lítið og glaðvært skáld sem daglangt syngur
og yrkir sínum himni hugljúf kvæði.

Og litlu neðar einnig út við Sog
býr óðinshani, lítill heimspekingur
sem ég þarf helst að hitta í góðu næði.

II
Hvað er að frétta, heillavinur minn?
Hér hef ég komið forðum mörgu sinni
og öll mín fyrstu óðinshana kynni
áttu sér stað við græna bakkann þinn.

Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,
háttvís og prúð og það er lítill vafi
að hjónin voru amma þín og afi
en hvað þið getið verið lík í sjón.

Já gott er ungum fugli að festa tryggð
við feðra sinna vík og mega hlýða
bernskunnar söng sem foss í fjarlægð þrumar.

Og megi gæfan blessa þína byggð
og börnum þínum helga vatnið fríða,
fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.

III
Ó, litli fugl þú lætur einskis spurt,
langar þig ekki að heyra að veröld þín
var eitt sinn líka óskaveröld mín?
En af hverju var ég að fara burt?

Hér gleyma ungir dagar stund og stað
og stríðið virðist enn svo fjarlægt þeim.
Hvað varðar líka óðinshanaheim
um Hitler, Túnis eða Stalingrað?

Og hvernig ætti fugl við lygnan fjörð
að festa sér í minni degi lengur
þann heim sem leggur úlfúð í sinn vana?

Og drottinn veit ég vildi að slíkri jörð
sem vorri yrði breytt fyrst svona gengur
í bústað fyrir börn og óðinshana.

[m.a. á plötunni Sýnir: Lög Bergþóru Árnadóttur – ýmsir]