Fjölskyldan fimm (1981-84)

Fjölskyldan fimm

Sönghópurinn Fjölskyldan fimm starfaði innan Samhjálpar en meðlimir hans komu allir úr sömu fjölskyldunni og fluttu trúarlega tónlist.

Fjölskyldan fimm kom fyrst fram á samkomum Samhjálpar haustið 1981 en þau voru systkinin Gunnbjörg, Ágúst, Kristinn og Brynjólfur Ólabörn og svo faðir þeirra, Óli Ágústsson, Gunnbjörg var þeirra sínu mest áberandi í söngnum en hún söng á fjölmörgum plötum auk þess að gefa út sólóplötu. Systkinin voru fleiri en sungu ekki öll.

Fjölskyldan fimm söng við fjölmörg tækifæri næstu árin og ekki eingöngu á samkomum Samhjálpar, einnig t.d. hjá Hjálpræðishernum, á Freeport fundum og víðar.

Vorið 1984 sendi Fjölskyldan fimm frá sér ellefu laga breiðskífuna Heyr þú minn söng með lögum úr ýmsum áttum en Óli orti textana. Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) annaðist upptökustjórn, útsetningar og hljómsveitarstjórn og lék auk þess á fjölda hljóðfæra sjálfur. Platan fékk ágæta kynningu og seldist eins og fleiri plötur Samhjálpar mestmegnis í gegnum símasölu.

Hver svo sem ástæðan er þá starfaði sönghópurinn ekki lengi eftir útgáfu plötunnar.

Efni á plötum