Fjórir fjörugir [2] (1994-99)

Fjórir fjörugir á Týrólabuxum

Hljómsveitin Fjórir fjörugir starfaði á Akureyri í nokkur ár seint á síðustu öld og lék austu-evrópska tónlist í bland við annað.

Sveitin kom fyrst fram á sjónarsviðið 1994 og kallaðist þá Fjórir fjörugir á Týrólabuxum, það nafn hélst við þá félaga í um tvö ár en eftir það styttu þeir það og kölluðu sig eftir það Fjóra fjöruga. Fyrra nafnið kann að stafa af því að þeir hafi leikið Týrólatónlist í bland við baltneska og rússneska tónlist en eitthvað komu íslensk sjómannalög einnig við sögu.

Fjörir fjörugir komu yfirleitt fram sem skemmtiatriði á stærri samkomum, t.d. komu þeir reglulega fram á 17. júní-skemmtunum á Akureyri en einnig héldu þeir stundum sjálfstæða tónleika, sveitin starfaði þó ekki samfleytt.

Meðlimir kvartettsins voru þeir Daníel Þorsteinsson harmonikkuleikari, Ármann Einarsson klarinettu- og gítarleikari, Jón Rafnsson kontrabassaleikari og Karl Petersen slagverksleikari en Björn Leifsson klarinettuleikari átti síðan eftir að leysa Ármann af hólmi. Sveitin kom oft fram með söngvara, einkum síðari part starfstíma hennar og meðal söngvara má nefna Ingu Eydal, Björgu Þórhallsdóttur, Rósu Kristínu Baldursdóttur og Aðalstein Bergdal.

Fjórir fjörugir (á Týrólabuxum) störfuðu til ársins 1999.