Fjörkarlar er nafn á hljómsveit / dúett sem hefur starfað í áratugi og skemmt einkum yngri kynslóðinni (að minnsta kosti í seinni tíð) á jólaskemmtunum og þess konar samkomum.

Hljómsveitin Fjörkarlar
Margt er óljóst í sögu Fjörkarla og ágiskanir því margar í þessari umfjöllun. Elstu heimildir um Fjörkarla eru frá árinu 1984 en þá lék hljómsveit undir þessu nafni á dansleik hjá hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði, hér er því giskað á að sveitin sé upphaflega úr Hafnarfirði enda hefur hún margoft verið auglýst á dansleikjum í þeim bæ.
Ekkert er að finna um sveitina á árunum 1984 til 91 en frá og með síðarnefnda árinu er saga Fjörkarla nokkuð samfleytt og mestmegnis tengd öskudags- og jólaskemmtunum fyrir börn en síðustu árin nær eingöngu jólatréskemmtunum þar sem um er að ræða dúett sem þeir Guðmundur Pálsson söngvari og gítarleikari og Gunnar Kr. Sigurjónsson söngvari og hljómborðsleikari starfrækja.

Dúettinn Fjörkarlar
Þeir Guðmundur og Gunnar hafa um árabil starfrækt dúettinn Prima en hafa yfir aðventu og jól tekið upp Fjörkarla-nafnið og skemmt á jólatrésskemmtunum fyrirtækja og stofnana við miklar vinsældir enda hafa þeir félagar góð sambönd við jólasveina. Dúettinn hefur einnig leikið og skemmt á annars konar skemmtunum s.s. á barnahátíð í Árnesi um verslunarmannahelgi, á skemmtunum tengdum ÍTR og víðar.
Ekki liggur fyrir hvenær hljómsveitin Fjörkarlar urðu að dúett þeirra Guðmundar og Gunnars en áður var um fullskipaða hljómsveit að ræða, upplýsingar vantar hins vegar um nöfn annarra meðlima og hljóðfæraskipan og er óskað eftir þeim hér með.
Fjörkarlar eru ennþá starfandi og í fullu fjöri.