
Fjörkallar á forsíðu Æskunnar
Hljómsveitin Fjörkallar úr Breiðholtinu kom með heilmiklu írafári fram á sjónarsviðið vorið 1988 og var nokkuð áberandi í gleðipoppdeildinni næstu tvö sumur en hvarf svo án þess að senda frá sér sumarsmell sem hefði ekki verið óvænt miðað við umfang og vinsældir sveitarinnar en hún hafði eitthvað af frumsömdu efni á takteinum.
Það voru þeir Hafsteinn Hafsteinsson söngvari, Ragnar Jónsson gítarleikari, Rúnar Guðmundsson trommuleikari, Sigurður Pétursson bassaleikari og Haraldur Kristinsson hljómborðsleikari sem skipuðu Fjörkalla en þeir höfðu áður starfrækt hljómsveitina Prima og þar áður Harðfiska svo þeir höfðu nokkra reynslu af því að koma fram opinberlega þegar þeir birtust í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1988. Þar komst sveitin í úrslit og reyndar gott betur því þeir félagar enduðu í þriðja sæti keppninnar á eftir Jójó frá Skagaströnd og Herramönnum frá Sauðárkróki, þarna var sumargleðipoppið svokallaða í hámarki og þrjár efstu sveitirnar voru í þeirri deildinni.
Það skemmdi ekki fyrir Fjörköllum að Hafsteinn söngvari Fjörkalla varð haustið 1988 þekktur sem umsjónamaður popptónlistarþáttar á Stöð 2 enda var hann hress og skemmtilegur á sviði og andlit sveitarinnar út á við. Þeir félagar gátu því keyrt nokkuð á hressleikanum og léku á fjölda dansleikja yfir sumartímann, þannig léku þeir t.d. á sautjánda júní skemmtunum í miðbæ Reykjavíkur og á Bindindismótinu í Galtalæk tvö sumur í röð (1988 og 89) við mikla gleði æskufólks.
Fjörkallar hurfu af sjónarsviðinu síðla sumars 1989 og birtust ekki aftur næsta vor á eftir.