Afmælisbörn 23. janúar 2021

Þuríður Sigurðardóttir

Þessi dagur er fullur af afmælisbörnum og hefst þá upptalningin:

Helena (Marín) Eyjólfsdóttir, ein dáðasta dægurlagasöngkona landsins er sjötíu og níu ára en hún gerði garðinn einkum frægan norðan heiða með hljómsveitum Finns og Ingimars Eydal og Atlantic kvartettnum en Finnur var eiginmaður hennar. Helena söng inn á fjölmargar plötur á söngferli sínum, þá fyrstu þegar hún var einungis ellefu ára gömul.

Þuríður (Svala) Sigurðardóttir söngkona og listmálari er sjötíu og tveggja ára gömul í dag. Þuríður söng með ýmsum þekktum danshljómsveitum á sjöunda og áttunda áratugnum og gerði lög eins og Ég ann þér enn, Elskaðu mig, Vinur og Ég á mig sjálf mjög vinsæl. Hún gaf ennfremur út fjölmargar plötur og í félagi við aðra á sínum tíma.

Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður, einkum kenndur við Stuðmenn, er sextíu og níu ára. Hann kom þó víðar við á hljómsveitaferli sínum, var í Komplex, Hrekkjusvínum, Spilverki þjóðanna og Jolla & kóla sem var samstarfsverkefni hans og Sigurðar Bjólu. Valgeir hóf sólóferil um það leyti sem hann varð fulltrúi Íslands í Eurovision 1987, hefur gefið út fjöldann allan af sólóplötum og hefur einnig samið kvikmynda- og leikhústónlist.

Ólafur (Þorbjörn) Halldórsson hljóð- og upptökumaður er sextíu og sex ára gamall. Þær plötur sem Ólafur hefur tekið upp og hljóðblandað skipta sjálfsagt hundruðum en meðal tónlistarflytjenda sem notið hafa krafta hans eru Jetz, Sixties, Endurvinnslan, Ríó tríó, Buttercup, Nýdönsk, PPPönk, Bítlavinafélagið og Sverrir Stormsker svo einungis örfá dæmi séu tekin.

Sigrún Eva Ármannsdóttir söngkona frá Ólafsfirði er fimmtíu og þriggja ára gömul í dag. Hún var í hljómsveitunum Þúsund andlitum, Upplyftingu og Saga Class en er einna þekktust fyrir Eurovision þátttöku sína ásamt Sigríði Beinteinsdóttur árið 1992 með lagið Nei eða já, en hún söng oft í undankeppnunum hér heima sem og Landslagskeppninni þegar hún var og hét.

Kristinn Sigurpáll Sturluson (Kiddi rokk) gítarleikari er fjörutíu og tveggja ára, hann hefur leikið með ýmsum hljómsveitum eins og Kung fú, Johnny on the north pole, Góðum landsmönnum og Smack auk þess að starfa sem hljóð- og hljóðupptökumaður. Lagasmíðar hans hafa heyrst í undankeppni Eurovision.

Davíð Berndsen tónlistar- og tæknimaður á afmæli í dag, hann er þrjátíu og sex ára gamall. Berndsen hefur sent frá sér sólóplötur fyrir íslenskan og erlendan markað, sem innihalda tónlist með afturhvarf til níunda áratugar síðustu aldar en hefur einnig starfað með öðru tónlistarfólki s.s. Þórunni Antoníu, Bubba o.fl.

Davíð Berndsen

Helgi Helgason tónskáld og lúðrasveitafrumkvöðull (1848-1922) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann var fyrstur Íslendinga til að nema lúðrablástur, kom heim frá Kaupmannahöfn með töskur fullar af blásturshljóðfærum og stofnaði fyrstu lúðrasveitirnar hérlendis. Helgi var einnig tónskáld og samdi t.d. lögin við Öxar við ána og Vorið góða grænt og hlýtt, sem allir þekkja.

(Kristján) Eyþór Stefánsson tónskáld og tónlistarfrömuður (1901-99) átti líka afmæli á þessum degi. Hann var Skagfirðingur og starfaði mest þar þrátt fyrir að nema fræðin í Þýskalandi, hann stýrði kórum og lúðrasveitum norðanlands, kenndi söng og var frumkvöðull á ýmsum sviðum tónlistarinnar þar. Þrátt fyrir að vera fyrst og fremst alþýðulistamaður samdi hann þekkt sönglög eins og Bikarinn og Lindina.

Guðmunda Elíasdóttir söngkona átti ennfremur afmæli þennan dag en hún lést 2015. Guðmunda (f. 1920) átti viðburðaríkan óperusöngferil hér heima og erlendis, nam í Danmörku og söng víða um heim, bæði í Evrópu og vestanhafs, hún söng meðal annars þrívegis í Hvíta húsinu í Washington. Plötur með henni komu út sem og ævisagan, Lífsjátning sem Ingólfur Margeirsson skráði og hefur fyrir löngu komist á sérstakan stall meðal ævisagna hérlendis.

Vissir þú að Engel Lund helgaði líf sitt varðveislu íslenskra þjóðlaga og gaf m.a. út plötu með slíkum lögum?