Frakkar (1982-85 / 1988)

Frakkar í miðjuopnu Vikunnar

Hljómsveitin Frakkar starfaði um þriggja ára skeið á fyrri hluta níunda áratugarins, lék funkskotið rokk og sendi frá sér eina breiðskífu. Sveitin náði þó aldrei að komast í fremstu röð í vinsældum og lognaðist smám saman útaf.

Aðdragandi þess að hljómsveitin var stofnuð var sá að Þorleifur Guðjónsson bassaleikari hafði verið rekinn úr Egó haustið 1982, Þorleifur sá enga ástæðu til að leggja árar í bát heldur hóf hann að æfa nýja sveit í æfingahúsnæðinu sem Egó hafði haft enda var það húsnæði komið til í gegnum hann. Með honum í sveitinni voru Gunnar Ágústsson trommuleikari og Finnur Jóhannsson gítarleikari sem hafði þá vakið nokkra athygli sem söngvari Tíbrár frá Akranesi, Mike Pollock kom svo síðastur inn sem söngvari sveitarinnar sem þá hafði fengið nafnið Frakkar – sem mun eiga sér skírskotun í Frakkastíginn en þar hafði vinahópur sem þeir voru hluti af haft einhvers konar athvarf og gengið undir Frakka-heitinu.

Frakkarnir komu ekki fram opinberlega fyrr en snemma sumars 1983, Þorsteinn Magnússon gítarleikari lék í nokkur skipti með þeim þá en var ekki fastur meðlimur bandsins, reyndar kom gítarleikarinn Tryggvi Hübner einnig fram með henni einhverju sinni. Þær breytingar urðu á skipan bandsins um sumarið að Gunnar Erlingsson tók við sæti nafna síns Ágústssonar á trommunum, og um það leyti var gefið út opinberlega að sveitin hygði á plötuútgáfu en skemmtistaðurinn Safarí ætlaði að fjármagna útgáfuna, þar léku Frakkarnir reyndar alloft meðan sveitin starfaði.

Frakkarnir

Ekki gekk þrautalaust að koma plötunni á markað, fyrst var Mike Pollock meinað að koma inn í Bretland þegar hann fór með upptökurnar til skurðar og einnig urðu vandamál með pressunina á skífunni þannig að hún komst ekki á markað fyrr en rétt fyrir jólin 1983 og því varð lítið um sölu á henni fyrir jólin. Þeir Frakkar gerðu þó sitt að kynna tónlistina og spiluðu töluvert mikið um þetta leyti, og héldu m.a. útgáfutónleika á Safarí. Plata Frakkanna hlaut nafnið 1984 sem er auðvitað tilvísun í fræga skáldsögu George Orwell, hlaut þokkalegar viðtökur gagnrýnenda, fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Tímanum en reyndar slaka í Helgarpóstinum.

Sveitinni bættist liðsauki undir lok ársins þegar gítarleikarinn gamalreyndi Björgvin Gíslason gekk til liðs við hana en hann hafði þá komið fram með þeim félögum í nokkur skipti og leikið sem gestur á plötunni. Framan af nýju ári, 1984 voru Frakkar duglegir að koma fram á tónleikum og komu einnig fram í sjónvarpsþættinum Glugganum í Ríkissjónvarpinu. Ásgeir Óskarsson sem hafði komið lítillega við sögu á plötunni gerðist nú liðsmaður sveitarinnar, kom í stað Gunnars trommuleikara en einnig varð Þorsteinn Magnússon gítarleikari loks fastur meðlimur hennar þegar Finnur Jóhannsson hætti, aðrir liðsmenn sveitarinnar voru þá Þorleifur bassaleikari, Mike söngvari og Björgvin gítarleikari.

Frakkar 1988 ásamt Ólafíu Hrönn

Sveitin spilaði lítið um vorið og sumarið enda voru þá meðlimir sveitarinnar fastir í öðrum verkefnum, og reyndar fór mjög lítið fyrir sveitinni næstu mánuðina og hvarf svo alveg vorið 1985. Aldrei var gefið út að sveitin væri hætt en hún féll fljótlega í gleymsku.

Það var svo í ársbyrjun 1988 að Frakkarnir birtust óvænt eftir þriggja ára hlé, þeir Björgvin, Þorleifur og Gunnar höfðu þá verið að starfa saman í hljómsveit sem þeir kölluðu Þrír á palli (reyndar ásamt Ásgeiri) og tóku þeir aftur upp Frakka-nafnið þegar Mike gekk til liðs við hópinn, og þeir fluttu nýtt efni á tónleikum í febrúar. Reyndar lék sveitin einungis einu sinni með Mike innan borðs en hann hugði þá hefja sólóferil og yfirgaf því Frakka, sæti hans tók ung og efnileg söngkona – Ólafía Hrönn Jónsdóttir (Lolla) sem síðar varð öllu þekktari sem leikkona, hún hefur þó sungið töluvert einnig. Þannig skipuð starfaði sveitin fram á sumarið 1988 en þá hættu Frakkarnir endanlega og hafa ekki komið saman síðan.

Platan 1984 hefur verið illfáanleg nánast síðan hún kom út og hefur aldrei verið gefin út á geislaplötu eða á streymisveitum Internetsins.

Efni á plötum