Ummhmm (1998-99 / 2012)

Ummhmm

Hljómsveitin Ummhmm starfaði á Akranesi og sendi frá sér eina plötu við lok síðustu aldar, sveitin varð þó fremur skammlíf.

Ummhmm var stofnuð snemma árs 1998 en forsprakki hennar, Jónas Björgvinsson kallaði þá saman hóp til að vinna tónlist sem hann hafði sjálfur samið. Sjálfur lék Jónas á gítar og söng en aðrir meðlimir Ummhmm voru Þórunn Pálína Jónsdóttir söngkona, Júlíus Þórðarson söngvari, Ragnar Örn Emilsson gítarleikari, Hrannar Örn Hauksson bassaleikari og Birgir Baldursson trommuleikari.

Hópurinn hélt til Danmerkur þar sem Orri Harðarson sveitungi þeirra af Skaganum rak hljóðver, þar hljóðritaði sveitin tíu laga plötu sem kom út um haustið 1998 undir titlinum Haust. Platan fékk þokkalega dóma í Fókusi og Morgunblaðinu en öllu betri í Degi. Sveitin starfaði ekki lengi eftir þetta og lognaðist út af fljótlega á nýju ári, lag með henni birtist hins vegar löngu síðar á safnplötunni Skagamenn skoruðu mörkin (2007).

Ummhmm lá í dvala allt til haustsins 2011 þegar Jónas endurstofnaði sveitina til að vinna lag samið til minningar um Laufeyju Ingibjartsdóttur sem hafði látist úr veikindum skömmu fyrr. Meðlimaskipan sveitarinnar var með allt öðrum hætti en verið hafði undir lok 20. aldarinnar, Jónas og Birgir trommuleikari voru einir eftir af upprunalega hópnum en aðrir meðlimir Ummhmm voru þau Unnur Birna Björnsdóttir fiðluleikari, Eiríkur Ragnar Stefánsson trompetleikari, Eðvarð Lárusson gítarleikari og Þórður Högnason bassaleikari. Í kjölfarið stóð til að halda áfram að hljóðrita efni á heila plötu ef af þeim áformum hefur ekki orðið og er sögu sveitarinnar að öllum líkindum lokið.

Efni á plötum