Hljómsveit sem bar heitið S.O.S. (SOS) og gekk ýmist undir S.O.S. tríó eða kvartett heitinu (jafnvel Danshljómsveit S.O.S.) starfaði snemma á sjötta áratug síðustu aldar, á árunum 1951-53. Þessi sveit starfaði líkast til fyrir austan fjall og spilaði þar mest s.s. í Árnes- og Rangárvallasýslu en einnig á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum (1953) og reyndar eitthvað á höfuðborgarsvæðinu.
Hljómsveitina munu þeir Friðrik Friðriksson [?], Sigmundur Lúðvíksson gítarleikari, Vilhelm Ingólfsson [?] og Haukur Sveinbjarnarson harmonikkuleikari hafa skipað en síðar komu til sögunnar Hallur Símonarson og Sveinn Jóhannsson.
Hljómsveitinni var bannað að auglýsa dansleiki sína í Ríkisútvarpinu þar sem erlendir sjómenn sem náðu útsendingum þess höfðu oft samband við útvarpið til að kanna hvort einhver hætta væri á ferðum þegar þeir heyrðu nafn sveitarinnar ítrekað endurtekið. Það varð til þess að þeir félagar breyttu nafni hennar í H.B. kvintettinn.














































