Sigurður Bjóla (1952-)

Sigurður Garðarsson

Nafn Sigurðar Bjólu er eitt þeirra stóru í íslenskri tónlistarsögu þótt aldrei hafi mikið farið fyrir honum opinberlega og líklega ætti hugtakið „huldukamelljón“ ágætlega við hann. Hann hefur starfað mest alla ævi að tónlist með einum eða öðrum hætti sem söngvari, hljóðfæraleikari, hljóð- og upptökumaður, höfundur, útsetjari og margt fleira og var t.d. lykilmaður í þeirri gerjun sem varð til í kringum Spilverk þjóðanna og Stuðmenn á síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar. Hann hefur aldrei sent frá sér sólóefni en slíku efni yrði sjálfsagt vel tekið af tónlistaráhugafólki.

Sigurður Garðarsson er fæddur haustið 1952 og uppalinn í Reykjavík en hann hefur iðulega gengið undir nafninu Sigurður Bjóla eða bara Bjólan, það kemur til af því hann var sem barn í sveit á bænum Bjólu í Djúpárhreppi í Rangárvallasýslu hjá ættingjum sínum og tók því upp nafnið sem síðar hefur loðað við hann alla tíð.

Sigurður Bjóla  byrjaði á menntaskólaárum sínum að semja tónlist án þess að hafa einhvern sérstakan tónlistarbakgrunn eða tónlistaruppeldi, hann kenndi sér sjálfur á gítar og önnur hljóðfæri, og hafa samferðarmenn hans talað um hann sem hæfileikaríkan lagahöfund og útsetjara, og margir af dægurlagatextum hans þykja með þeim allra bestu sem samdir hafa verið á íslenska tungu.

Bjólan við hljóðversvinnu

Bjólan sem er hæglátur og hlédrægur tónlistarmaður sem yfirleitt hefur forðast sviðsljósið, varð töluvert áberandi í íslensku tónlistarlífi frá og með miðjum áttunda áratug síðustu aldar en hann spratt upp úr þeirri gerjun sem varð til í Menntaskólanum við Hamrahlíð sem þá var tiltölulega nýtekinn til starfa, það var fyrst og fremst með Spilverki þjóðanna og svo Stuðmönnum en með þessum tveimur sveitum samdi hann fjölda laga og texta, ýmist einn eða í félagi við aðra, hér má nefna lög eins og Græna byltingin, Landsíma-Lína, Nútíminn, Reykjavík, Sirkus Geira Smart, Reykingar, Tívolí og Í bláum skugga en síðast talda lagið söng Bjólan sjálfur á Stuðmannaplötunni Sumar á Sýrlandi, hann var þó aldrei áberandi fram á við með Stuðmönnum, hvorki á sviði né á plötum og hefur stundum verið kallaður „týndi Stuðmaðurinn“. Meðal annarra þekktra laga sem Sigurður Bjóla hefur sungið má nefna Ísland og Arinbjarnarson með Spilverkinu og titillagið Sumar á Sýrlandi af fyrrnefndri plötu Stuðmanna. Þar fyrir utan söng hann raddir í fjölmörgum lögum sveitanna tveggja auk þess að spila á fjölda hljóðfæra en hann er jafnvígur á bassa, gítar, hvers kyns hljómborðshljóðfæri og slagverk, sagan segir að hann hafi t.d. leikið á trommur í laginu Paradísarfuglinn sem Spilverkið vann með Megasi á plötunni Á bleikum náttkjólum. Þess má og geta að hann átti hugmyndina að „Tívolí-konsepti“ Stuðmanna á samnefndri plötu þeirrar sveitar. Endalok Sigurðar með Stuðmönnum urðu með fremur leiðinlegum hætti þar sem honum var nánast bolað úr sveitinni af einum armi hennar, leiðindin urðu reyndar ekki meiri en svo að hann hefur samið bæði lög og texta fyrir Stuðmenn og söng m.a.s. eitt laga sinna sjálfur (Í nótt) á plötunni Listin að lifa (1989).

Sigurður Bjóla

Bjólan dró sig mikið út úr sviðsljósinu um 1980 og starfaði mikið til eftir það í hljóðverum, sem upptökumaður og við hljóðblöndun en hann kom að hljóðritun líklega hundruð platna með einum eða öðrum hætti, hann starfaði mestmegnis í Hljóðrita í Hafnarfirði en einnig í Sýrlandi, Grettisgati, Mjöt og Stúdíó Stemmu. Hér má nefna plötur með ólíku tónlistarfólki og hljómsveitum eins og Grýlunum, Egó, Björgvini Halldórssyni, Diddú, Drýsli, Fræbbblunum, Jóhanni Helgasyni, Bubba Morthens, Geirmundi Valtýssyni, Nýdanskri, Sumargleðinni, Sléttuúlfunum, Orra Harðar, Dúkkulísunum, Start og Sverri Stormsker svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd. Hann lék jafnframt á ýmis hljóðfæri og söng bakraddir á mörgum þessara platna en hélt sig þó mestmegnis opinberlega til hlés. Nokkrar undantekningar voru þó frá því og hér má t.d. nefna samstarf hans með Valgeiri Guðjónssyni undir nafninu Jolli & Kóla en þeir sendu frá sér plötu 1983, og samstarf við Pjetur Stefánsson ýmist undir nafninu PS & Bjóla sem hefur getið af sér tvær plötur, þá síðari árið 2018. Þá hefur hann t.d. unnið að plötu með Jóni Ólafssyni í tilefni af aldarafmæli Steins Steinarr og komið að miklum fjölda annarra slíka hljóðversverkefna t.a.m. í tengslum við kvikmynda- og leikhústónlist, hann starfaði lengi við hljóðstjórn í Þjóðleikhúsinu og við ýmsar tónlistarsýningar á Broadway og víðar en hefur jafnframt samið fyrir leikhús, bæði áhuga- og atvinnuleikhús.

Margar lagasmíðar Sigurðar Bjólu hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga síðustu áratugina og má þar m.a. nefna lög og texta eins og Reykingar (Grísalappalísa), Ólína og ég (Hjálmar), Gegnum holt og hæðir (Tríó Björns Thoroddsen), Sirkur Geira Smart (Á móti sól) og Í bláum skugga (Blikandi stjörnur, Hermigervill, Helgi Björns), þá hafa aðrir listamenn flutt tónlist Sigurðar á plötum sínum s.s. Björn Jr. Friðbjörnsson, Egill Ólafsson, Þursaflokkurinn, Björgvin Halldórsson og Hildur Vala svo nokkur dæmi séu nefnd.

Sigurður Bjóla starfar enn eitthvað að tónlist en hann hefur búið síðustu árin austur á Stokkseyri.

Efni á plötum