Sigurður Þórarinsson (1912-83)

Dr. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur

Dr. Sigurður Þórarinsson (1912-83) sem margir hinna eldri muna eftir úr sjónvarpsviðtölum með rauða skotthúfu við eldstöðvar og á jöklum, var jarðvísindamaður og virtur fyrir rannsóknir sínar og fræðistörf, hann ritaði fjöldann allan af fræðigreinum og -bókum og var þekktur sem slíkur en hann var einnig kunnur fyrir sönglagatexta sína sem skipta tugum, margir þeirra hafa orðið þjóðkunnir. Hér má nefna texta eins og Að lífið sé skjálfandi, Jarðarfarardagur, Vestast í Vesturbænum, Þórsmerkurljóð (María, María), Vorkvöld í Reykjavík, Spánarljóð, Ég ætla heim, Sigga Geira (Raunasaga úr sjávarþorpi), Landafræði og ást og Anna litla. Margir textanna voru ortir við þjóðlög eða erlend lög en Sigurður mun reyndar eitthvað hafa samið tónlist sjálfur. Vart þarf að taka fram að margir af textum Sigurðar hafa komið út á plötum í gegnum tíðina og nokkrir þeirra eru samofnir íslenskri rútubíla- og útilegumenningu.

Sigurður hafði numið fræði sín í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi og komist í kynni við sænska söngvaskáldið Carl Michael Bellman (1740-95). Hann hreifst af Bellman og vann að bók sem nánast var tilbúin þegar hann lést árið 1983, Árni Sigurjónsson lauk þá við gerð bókarinnar og var hún gefin út fljótlega að honum látnum. Bókin sem bar titilinn Bellmaniana hafði að geyma umfjöllun um Bellman og auk þess þýðingar á þrettán Bellman vísum en sex þeirra hafði Sigurður sjálfur þýtt – þ.á.m. ljóðið um Gamla Nóa. Sjálfur hafði Sigurður oft sungið ljóð Bellmans, t.d. á samkomum Vísnavina sem hann var virkur í. Annars mun Sigurður hafa notið sín einna best við söng og gítarspil í félagsskap vina og náttúruunnenda í Ferðafélagi Íslands á hálendinu en segja má að hann hafi verið eins konar trúbador þótt hann hafi ekki gert út á það sérstaklega.

Sigurður Þórarinsson

Þegar Sigurður varð sjötugur sendi Norræna félagið frá sér plötuna Eins og gengur: Söngvísur Sigurðar Þórarinssonar en á henni var að finna fjórtán vísur eftir jarðfræðinginn, ýmsir valinkunnir tónlistarmenn komu að gerð plötunnar og voru margir þeirra tengdir Vísnavinum.  Í tilefni af aldarafmæli Sigurðar árið 2013 var aftur blásið í lúðra og Ferðafélag Íslands, Hið íslenska náttúrufélag og Jöklarannsóknarfélag Íslands gáfu í sameiningu út veglegan pakka undir nafninu Kúnstir náttúrunnar: Aldarslagur Sigurðar Þórarinssona (1912-2012), söngvísur og svipmyndir. Um var að ræða tvöfalda plötu, annars vegar geisladisk með 32 lögum – fyrstu fjórtán lögin voru af plötunni Eins og gengur, næstu níu voru upptökur frá 60 ára afmæli FÍ 1987 þar sem vísur Sigurðar voru kyrjaðar, og síðustu níu lögin voru nýjar hljóðritanir. Hins vegar var dvd-diskur sem innihélt heimildarmyndina Vísindin efla alla dáð: Rauða skotthúfan (1994), sjónvarpsþáttinn Svo endar hver sitt ævisvall (1982) sem innihélt átta Bellmanssöngva, og sjónvarpsþáttinn Sigurðar vísur Þórarinssonar (1992) sem hafði að geyma sjö lög við texta Sigurðar. Veglegur bæklingur fylgdi útgáunni.

Ævisaga Sigurðar, Sigurður Þórarinsson – Mynd af manni, skráð af Sigrúnu Helgadóttur kom út fyrir jólin 2021 og hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

Efni á plötum