Skagarokk [tónlistarviðburður] (1989-94)

Frá Skagarokki 1989

Þegar minnst er á Skagarokk-tónleikana tengja flestir það við tvenna tónleika sem haldnir voru á Akranesi haustið 1992, annars vegar með Jethro tull, hins vegar Black sabbath. Málið er hins vegar að bæði fyrr og síðar hafa verið haldnir tónleikar á Skaganum undir þessari sömu yfirskrift.

Fyrstu svonefndu Skagarokks-tónleikar voru haldnir vorið 1989 í Bíóhöllinni á Akranesi, þar lék nokkrar sveitir sem flestar voru af Skaganum og töldust til bílskúrssveita en mikil gróska var þá í tónlistarlífinu í bænum. Þetta voru hljómsveitirnar Villingarnir, Bróðir Darwins, Lalli og sentimetrarnir, Batterí og Vonleysa.

Tónleikarnir þóttu takast vel svo leikurinn var endurtekinn árið eftir, Skagarokk II var haldið í Bíóhöllinni eins og árið á undan og viðburðurinn var settur upp með svipuðu sniði, Blúsbandið, Frímann, Dárar, Libido, Mumpappaður dípraktor, Jesús kristur & naglhreinsararnir og Bróðir Darwins voru sveitirnar sem tróðu upp fyrir þá 400 áhorfendur sem mættu í höllina en síðast talda sveitin var sú eina sem hafði verið á tónleikunum árið á undan.

Engir Skagarokks-tónleikar voru haldnir 1991 en vorið 1992 voru þeir haldnir í þriðja sinn, meðal sveitanna sem léku í Bíóhöllinni að þessu sinni voru Aband, Abbababb, Pegasus og Plast en alls voru sveitirnar átta – ekki liggja fyrir upplýsingar um aðrar sveitir. Um 200 manns mættu á Skagarokkið að þessu sinni en tónleikarnir féllu í skuggann af öðrum viðburði sem fékk mun meiri athygli fjölmiðlanna en voru auglýstir einnig undir Skagarokks nafninu. Þetta voru tvennir risatónleikar í íþróttahúsinu á Akranesi haldnir í september í tilefni af 50 ára afmæli Akraneskaupstaðar, annars vegar með Jethro tull og hins vegar með Black sabbath – Gildran átti að hita upp fyrir fyrri tónleikana en hin norska Artch með Eirík Hauksson í broddi fylkingar fyrir þá síðari.

Skagarokk ´92

Fjölmiðlar gerðu tónleikunum heilmikil skil og menn voru bjartsýnir þrátt fyrir að um væri að ræða tvær sveitir sem komnar væru af léttasta skeiðinu. Það fór reyndar svo að menn sáu fyrir að ekki myndu seljast nógu margir miðar til að þeir stæðu undir sér, og fyrir vikið voru miðar seldir á hálfvirði þegar nær dró tónleikunum. Þrátt fyrir það mættu aðeins um 250 manns á tónleikana með Black sabbath á meðan aðsóknin á fyrri tónleikana var ásættanlegri. Niðurstaðan var stórtap og tónleikahaldarar (sjö aðilar) sátu uppi með sárt ennið – þeir hinir sömu reyndu að fá Mick Jagger til tónleikahalds til að borga upp tapið, og Paul McCartney til vara en hvorugt gekk eftir. Löngu síðar var gerð heimildamynd um Skagarokks-ævintýrið.

Hinir upphaflegu Skagarokks-tónleikar voru haldnir áfram þótt með breyttu sniði væri en nú voru fengnar þekktar sveitir „að sunnan“ í stað bílskúrssveita af Skaganum. Ólafur Páll Gunnarsson (einn þeirra sem hafði spilað á fyrri Skagarokkstónleikum) sem þarna var byrjaður að vinna hjá Rás 2 var maðurinn á bak við þetta nýja fyrirkomulag og Skagarokk ´93 voru haldnir í Bíóhöllinni með rokksveitunum Stripshow, Regni, Jet Black Joe, Dos Pilas og Lipstick lovers. Tónleikunum var útvarpað á Rás 2 sem og ári síðar (haustið 1994) en þá voru það Lipstick lovers, Olympia, Jógúrt, Silfurtónar, XIII og Bubbi Morthens sem tróðu upp í Bíóhöllinni. Af einhverjum ástæðum voru aðeins um 120 manns sem mættu á þennan viðburð og e.t.v. fannst fólki nóg að heyra tónleikana í útvarpinu en þeim var eins og árið á undan, útvarpað á Rás 2, jafnvel Bubbi náði ekki að trekkja að.

Skagarokk var því haldið í síðasta skiptið haustið 1994 en síðan þá hafa reyndar einstaka viðburðir á Akranesi, t.a.m. í tengslum við Írska daga og hátíðarhöld á 17. júní, gengið undir nafninu Skagarokk. Þeir viðburðir eiga ekkert til við hið eiginlega Skagarokk.