Skuggar [5] (1963)

Í Reykjavík starfaði gítarhljómsveit undir nafninu Skuggar árið 1963 en sú sveit innihélt tvo gítarleikara og var í anda bresku sveitarinnar The Shadows sem þá naut mikilla vinsælda um heim allan, sveitin notaði svokallað Swissecho delay tæki til að ná Shadows gítar sándinu en það hafði verið keypt í Danmörku og var þá nýjung hérlendis.

Meðlimir Skugga voru Sturla Már Jónsson gítarleikari, Guðjón Ágústsson gítarleikari, Sigurður Ágúst Jensson trommuleikari og Sævar Hjálmarsson bassaleikari.

Þessi sveit var að líkindum fremur skammlíf en lék þó í nokkur skipti opinberlega, á danskvöldum hjá ungmennastúkunni Hrönn og í pásu á dansleik hjá Lúdó & Stefáni í Hlégarði í Mosfellssveit. Skuggar hættu störfum þegar Sturla Már gekk til liðs við hljómsveitina Sóló.