Snillingarnir [1] (1979-80)

Snillingarnir

Hljómsveitin Snillingarnir var ein allra fyrsta pönksveitin hér á landi, sjálfir skilgreindi sveitin sig aldrei sem pönk en þeir félagar blönduðu tónlist sína þjóðlögum. E.t.v. mætti segja að sveitin hafi verið eins konar útungarstöð fyrir Fræbbblana því tveir meðlima hennar áttu síðar eftir að leika með þeirri sveit.

Snillingarnir munu hafa verið stofnaðir sumarið 1979 og telst vera úr mekka pönksins á Íslandi, Kópavogi. Tveir meðlimir sveitarinnar voru reyndar Akureyringar – Steinþór Stefánsson bassaleikari og Árni Daníel Júlíusson söngvari og saxófónleikari, en Arnór Snorrason gítarleikari, Ríkharður H. Friðriksson gítarleikari og Árni Ísberg trommuleikari komu úr Kópavoginum, Ríkharður hafði þá áður verið í Fræbbblunum.

Sveitin kom fram í fyrsta sinn á tónleikum í Tónabæ í október og í byrjun nóvember kom sveitin fram á tónleikum (ræflarokkshátíð) í Kópavogsbíói ásamt Fræbbblunum, Exodus og ljóðskáldinu Kristjáni Hreinsmögur, fáeinum dögum síðar léku Snillingarnir og Fræbbblarnir aftur á tónleikum í Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut. Það má því segia að sveitin hafi verið nokkuð virk haustið 1979.

Snillingarnir

Eftir áramótin fór minna fyrir Snillingunum, sveitin lék ásamt mörgum öðrum á Kambútseu tónleikum í Austurbæjarbíó í febrúar og svo í Tjarnarbíói í byrjun apríl 1980 en það urðu líklega síðustu tónleikar sveitarinnar því um það leyti var Steinþór bassaleikari að ganga til liðs við Fræbbblana og skömmu síðar Arnór gítarleikari einnig og þar með var saga Snillinganna úti. Árni trommuleikari og Ríkharður voru í framhaldinu um tíma í hljómsveit sem hét Lögbann og Árni Daníel stofnaði fljótlega Taugadeildina. Snillingarnir hafa komið saman í nokkur skipti á þessari öld, árin 2010 og 11, og svo árið 2017.

Þess má geta að lagið Í nótt sem Fræbbblarnir gerðu ódauðlegt (m.a. í Rokk í Reykjavík) kemur upphaflega frá Snillingunum, og var samið af Steinþóri. Einhverjar upptökur munu vera varðveittar með sveitinni og kom út eitt lag með henni á kassettunni [Hrátt] Pönksafn árið 2016.