Afmælisbörn 5. september 2022

Bessi Bjarnason

Afmælisbörn Glatkistunnar eru fjögur í dag:

Tónlistar- og myndlistamaðurinn Júníus Meyvant (Unnar Gísli Sigurmundsson) frá Vestmannaeyjum er fertugur og á því stórafmæli á þessum degi. Síðan hann sendi frá sér lagið Color decay árið 2014 hefur hann gefið út nokkur lög á breið- og smáskífum sem notið hafa vinsælda en hann starfaði einnig áður með hljómsveitinni Jack London.

Ari Eldjárn (Þórarinsson) er fjörutíu og eins árs gamall í dag. Ari er auðvitað þekktastur sem uppistandari, eftirherma og skemmtikraftur og hefur sem slíkur sent frá sér plötur með skemmtiefni, en honum er reyndar margt annað til lista lagt og hann þykir t.a.m. lunkinn söngvari, gítar- og trommuleikari.

Sjálfur Kristján Kristjánsson (KK) saxófónleikari hefði átt þennan afmælisdag. Hann fæddist 1925, lærði á harmonikku, klarinettu og saxófón hér heima og í Bandaríkjunum, hann er kunnastur fyrir hljómsveit sína, KK sextettinn sem hann starfrækti um fimmtán ára skeið en sveitin var vinsælasta danssveit landsins og með þekktustu söngvarana, s.s. Ragnar Bjarnason og Elly Vilhjálms. Kristján lék með og starfrækti fleiri sveitir en þær voru skammlífari, hann lést 2008.

(Ólafur) Bessi Bjarnason leikari átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 2005. Bessi (fæddur 1930) söng og las inn á fjölmargar plötur ætlaðar börnum, margir muna t.d. eftir plötunni þar sem hann söng lög með vísum Stefáns Jónssonar og enn fleiri muna eftir honum í hlutverki Mikka refs í Dýrunum í Hálskógi. Einnig var hann sögumaður á nokkrum plötum sem innihéldu ævintýri fyrir börn.

Vissir þú að Grétar Örvarsson starfaði á sínum tíma með hljómsveitinni Tilbreytingu frá Höfn í Hornafirði?