Afmælisbörn 7. nóvember 2022

Óttarr Proppé

Afmælisbörn dagsins eru fimm talsins á skrá Glatkistunnar:

Óttarr Ólafur Proppé fyrrverandi alþingismaður og söngvari Ham, Funkstrasse, Rass, Dr. Spock, Drullu o.fl. er fimmtíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Margir þekkja hann einnig sem prófessorinn á Diskóeyjunni og enn fleiri muna eftir honum í bakraddahlutverki í Eurovision keppninni með Pollapönkurunum.

Alexandra Baldursdóttir gítarleikari hljómsveitarinnar Mammút á þrjátíu og þriggja ára afmæli í dag. Mammút hefur gefið út nokkrar plötur en sveitin hefur hvarvetna hlotið góðar viðtökur fyrir plötur sínar, þess má geta að Alexandra hefur starfað í Mammút í um helming ævi sinnar sem þó er ekki ýkja löng.

Óðinn G. Þórarinsson lagahöfundur og harmonikkuleikari fagnar stórafmæli en hann er níræður í dag. Óðinn gerði garðinn frægan með hljómsveitum á Fáskrúðsfirði og á Akranesi hér áður fyrr en þekktastur er hann án nokkurs vafa fyrir að hafa samið lagið Nú liggur vel á mér. Árið 1997 sendi Hljómsveit Friðjóns Jóhannssonar frá sér plötuna Við tónanna klið en hún hafði að geyma nítján lög eftir Óðin.

Þá hefði Guðlaugur (Auðunn) Falk gítarleikari (f. 1959) átt afmæli í dag enn hann lést eftir veikindi árið 2017. Guðlaugur starfaði um ævi sína með mörgum rokkhljómsveitum, sumum í þyngri kantinum, og má m.a. nefna Exizt, Fist, Gildruna, Dark harvest, Stálfélagið og C.o.T. Hann gaf einnig út tvær sólóplötur.

Einnig hefði Guðmundur Finnbjörnsson (fæddur 1923) fiðlu- og saxófónleikari frá Ísafirði átt afmæli þennan dag en hann rak hljómsveitir undir eigin nafni um árabil auk þess að leika með ýmsum danshljómsveitum hér á árum áður. Guðmundur lést árið 2009.

Vissir þú að Silli Geirdal bassaleikari Dimmu og söngvarinn Geir Ólafsson störfuðu eitt sinn saman í dúettnum Black diamond?