Steinþór Þorgrímsson (1884-1937)

Fremur fáar heimildir er að finna um Steinþór Þorgrímsson en hann var allt í senn, kórstjórnandi, tónlistarkennari, organisti og tónskáld.

Steinþór (fæddur 1884) virðist mest alla sína tíð hafa verið búsettur í Kelduhverfi í Norður Þingeyjasýslu en hann var organisti við Skinnastaða- og Garðssókn auk þess að stjórna þar kirkjukór, þá stofnaði hann og stjórnaði karlakórum í Öxarfirði og Núpasveit og er sagður hafa stofnað karlakór í Kelduhverfinu einnig – hugsanlega er þó þar um að ræða annan hvorn framangreindra kóra. Steinþór mun jafnframt hafa kennt á orgel í heimabyggð sinni.

Steinþór samdi fjölmörg sönglög, líklega bæði einsöngs- og kórlög og nokkur þeirra komu út í nótnaheftum ásamt sönglögum annarra tónskálda, ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um að lög hans hafi komið út á plötum.

Steinþór lést árið 1937, óskað er eftir frekari upplýsingum um hann.