Spaðafjarkinn (um 1995-2003)

Spaðafjarkinn

Söngkvartett var starfandi innan karlakórsins Söngbræðra í uppsveitum Borgarfjarðar í kringum aldamótin, undir nafninu Spaðafjarkinn.

Spaðafjarkinn söng eitt lag á plötu Söngbræðra – Vorvindar, sem kom út haustið 1999 en þá var kvartettinn sagður hafa verið starfræktur um nokkurra ára skeið. Hann söng nokkuð á tónleikum kórsins um það leyti en einnig á öðrum samkomum utan kórastarfsins, allt til ársins 2003 að minnsta kosti.

Meðlimir Spaðafjarkans voru þeir Halldór Sigurðsson fyrsti tenór, Snorri Kristleifsson annar tenór, Jón Kristleifsson fyrsti bassi og Guðmundur S. Pétursson annar bassi. Svavar Sigurðsson var um tíma undirleikari kvartettsins en einnig kom Viðar Guðmundsson þar við sögu.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um Spaðafjarkann.