Afmælissöngur Bangsapabba

Afmælissöngur Bangsapappa
(Lag / texti: erlent lag / Kristján frá Djúpalæk)

Í skógi veisla gjörð skal góð
með gleði söng og teiti
því Bangsi okkar afmæli
nú á um þetta leyti.
Kunnur halur hærugrár
verður fimmtíu ára í ár.
Hæ, lengi lengi lifi hann
sem listir allar kann.

Og dagur reis með kátan klið
og kvað frá lóu‘ og þresti.
Og velkomna hann Bangsi bauð
með brosi sína gesti.
Bangsikarl: god dag, god dag,
höldum bangsadag í dag.
Hæ, lengi lengi lifi hann
sem listir allar kann.

Og dósir fjórar hérahjón
til hófsins lögðu gylltar
af berjasultu bestu þær
til barma voru fylltar.
Bangsa þykir eflaust æt
krækiberjasultan sæt.
Hæ, lengi lengi lifi hann
sem listir allar kann.

Frá músunum í Merkurbær
barst mikill sleikjupinni.
Sjá, hann mun gott að huggast við
í híði sínu inni.
Sofna við að sjúga hann
gamla heiðurskempan kann.
Hæ, lengi lengi lifi hann
sem listir allar kann.

Þá gamall elgur höfuð hyrnt
þar hóf með öldungstini
og flutt var ræða firnasnjöll
þeim fræga skógarsyni.
Góði Bangsi, kappinn knár.
Þú ert fimmtíu ára í ár.
Hæ, lengi lengi lifi hann
sem listir allar kann.

Og ræðan klapp og húrra hlaut
sem hrós, án keims af spotti.
Og Rebbi þerrði þakkartár
í þögn með loðnu skotti.
Húrra, landins besti björn,
skógarbúa skjól og vörn.
Hæ, lengi lengi lifi hann
sem listir allar kann.

Þá hérans rödd með blænum barst:
Heyr bangsinn gamli hrýtur.
Öll skógardýrin skildu að
hver skemmtun enda hlýtur.
Bangsi sæll, þú sofa skalt,
þakkir fyrir allt og allt.
Hæ, lengi lengi lifi hann
sem listir allar kann.

[af plötunni Dýrin í Hálsaskógi – úr leikriti]