Borgarbarn

Borgarbarn
(Lag og texti Bubbi Morthens)

Reykbrúnt þang
þekur fjöru
úti á skeri
skarfar dorma
blágræn aldan
ýfir makkann
úlfgráan.

Nöpur gola
gárar polla
fjúka dollur
dimmrauðar
milli steina
stöfum merktar
kóka kóla.

Svart berg
beður fugla
griðastaður
stóð á brún
brosti kalt
ungur maður
með myrk augu.

Sér til gamans
gengur sanda
augum rennir
ísmeygilegur
vopnið spáir
bráðum bana
fjörufuglum.

Ekur jeppa
jöklabana
þráir líka
lax að fanga
því tískan býður
borgardreng
tolla í taumi.

Reyklaus hvellur
rýfur kyrrð
úti á skeri
skarfar liggja
engum nýtir
nálykt brátt
mun fjöru fylla.

[af plötunni Bubbi Morthens – Von]