Bullutröll

Bullutröll
(Lag og texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Trúir þú á tröllabullið?
Taktu nú eftir, hlustaðu á!
Fyrir löngu fóru á stjá
ferleg skrímsli með hausa þrjá.

Þau eru líka þursar kölluð,
þungbúin og leið að sjá,
herfilega heimsk, ó já,
og hafa engu‘ að segja frá.

Bullutröll, bullutröll,
búa í stórri fjallahöll,
en fari þau um víðan völl
verða þau oft að steini.

Skessurnar í skessuleikjum
skoppa létt um dal og fjörð,
hendast yfir hæstu skörð
svo hristist bæði sjór og jörð.

Stólpakralar stika yfir
stærstu jökla, fara geyst.
Heljarbjörg þeir hafa reist
og haugbúa úr viðjum leyst.

Bullutröll…

Bullutröllin bylja hátt,
þau baula eins og gamlar kýr.
Ekkert þeirra aftur snýr
ef þau hreppir dagur nýr.

Ef þú heyrir óhljóð trölla
eru þau helst á þennan veg:
Sklibba-lagga, skölluleg,
skodda-bagga völlubeg.

Bullutröll…

[af plötunni Anna Pálína og Aðalsteinn Ásberg – Berrössuð á tánum: Bullutröll]