Örugglega umskiptingur
(Lag og texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)
Ég er bæði þrjósk og þver,
þung á brún og há og sver.
Ég er örugglega umskiptingur.
Ég gæti verið dóttir drottningar í klettum,
er dæmd til þess að hírast hérna eftir lögum réttum
hjá fólkinu sem þykist vera pabbi minn og mamma
því mér finnst ekki eðlilegt að þau mig sífellt skamma
fyrir það að vera viðutan og dreymin
og voðalega sinnulaus og gleymin.
Ég er bæði þrjósk og þver,
þung á brún og há og sver.
Ég er örugglega umskiptingur.
Ekki get ég sofið sumarlangar nætur
en sofna ósköp vært þegar aðrir fara á fætur.
Mér finnst best að drekka mysu úr grænni flösku
og marga hluti geymi ég í stórri ferðatösku
svo ég geti héðan horfið burtu í skyndi
í heiminn þar sem líf mitt er og yndi.
Ég er bæði þrjósk og þver,
þung á brún og há og sver.
Ég er örugglega umskiptingur.
Kannski er ég móðir margra álfabarna,
því mér í draumi lýsir oft björt og fögur stjarna.
Þá sé ég alla dýrðina í hamrasalnum háa
og hundrað kjóla á ég en ekki bara fáa.
Getur þetta verið veröld sem ég þekki?
Ég veit að henni gleymi ég sko ekki?
Ég er bæði þrjósk og þver,
þung á brún og há og sver.
Ég er örugglega umskiptingur.
Allt sem hérna gerist er álögunum bundið.
Endalaust ég vonast til að fá þeim af mér hrundið.
Ef ég bara kynni eina galdraþulu
ég ætti strax að komast í höllina mína gulu.
Þar sem er svo gaman og þægilegt að vera
og þjónar sjá um allt sem á að gera.
Ég er bæði þrjósk og þver,
þung á brún og há og sver.
Ég er örugglega umskiptingur.
[af plötunni Anna Pálína og Aðalsteinn Ásberg – Berrössuð á tánum: Bullutröll]