Draumsins Guð

Draumsins Guð
(Lag / texti: Ingibjörg Sigurðardóttir / Árilíus Níelsson)

Ó, draumsins guð, veit ljós um langa nótt.
Í ljúfa hljóma breyttu þrautastunum.
Við bjarma morguns stansar hjarta hljótt.
En húmsins barmur leynir þjáningunum.
Lát sögu mína enda líkt og ljóð,
sem líður himni mót við tár og blóð.

Ó, draumsins guð, hver lífs míns stund var ströng.
Já stríð og raun er lífið fyrir alla.
Við göngum hljóð í gegnum dauðans göng.
Með gleðisöng skal stærsta hetjan falla.
Ef hugsjón þín var göfug, sönn og góð,
þá gef með brosi störf þín, líf og blóð.

Ó draumsins guð, slíkt er mitt traust, mín trú,
er tekur þú mig brott til huliðsstranda.
Og hönd í hönd við göngum bjarta brú,
í blíðum friði hátt til sælli landa.
Og sigurkransinn signir röðulglóð
á sumarmorgni eftir tár og blóð.

[af plötunni Heyrði ég í hamrinum – ýmsir]