Ég mætti þér

Ég mætti þér
(Lag / texti: Ágúst Pétursson / Kristján frá Djúpalæk)

Ég mætti þér á mildu sumarkveldi
ó, manstu hversu dásamlegt það var
er særinn skein í sólarlagsins eldi
og sviflétt ský um himinhvolfið bar.

Um grænan skóg þú leiddir mig að lundi
og ljóð mín döpur vöktu hlátur þinn.
Ég roðnaði, ég stamaði, ég stundi
þá straukstu bjartri hendi’ um vanga minn.

Og ég var bara átján ára drengur
og örlög þræði dís í hljóði spann.
Og þá var brjóst mitt þaninn, grannur strengur
og þú varst fiðlarinn sem lék á hann.

Já, feiminn var ég fyrst, svo hvarf mér óttinn.
Þín fegurð í mér kveikti svo ég brann.
Þú kysstir mig, ég kyssti þig, og nóttin
í kyrrð og friði leið uns dagur rann.

[m.a. á plötunni Aftur til fortíðar 50-60: 1 – ýmsir]