Hugsað heim [2]

Hugsað heim [2]
(Lag og texti Ólafur Þórarinsson)

Hugurinn ber mig hálfa leið
ef hugsa ég til þín,
sem gafst mér tæran töfraseið
er ég teygaði sem vín.

Þótt nú um heiminn liggi leið
ég leita þess sem var,
er forvitinn sem barn ég beið
að berja lífsins svar.

Oft ég hugsa heim til þín
þar hugurinn dvelur hverja stund.
Í blíðum blænum til mín
berast kveðjur um draumanna sund.

Þá er eins og opnist sýn
um öldur hafsins að æskunnar grund.
Þar skærast vorsólin skín,
skín svo glatt í hjarta mínu.

Þó leiti ég enn um langan veg
að lífsins hugarró
mun bernskuminning margvísleg
mér helsta veita ró.

Ég sakna þín mest er dagur dvín
og dulin vaknar þrá.
Í draumi síðan ég svíf til þín
er svefninn lokar brá.

[af plötunni Ólafur Þórarinsson – Tímans tönn]