Laugardagur (korter yfir sex)

Laugardagur (korter yfir sex)
(Lag & texti: Bragi Valdimar Skúlason)

Mamma og pabbi sofa sætt og rótt
syfjuð muldra: „Það er ennþá nótt.“
Með stírur í augum á ísköldum tám
í eldhúsið ég trítla rám.

Núna get ég gert það sem ég vil.
Gengið um á skónum og draslað til.
Ég kúffyllta skál helli kókópöffs í.
Með kakómalti drekki því.

Ég er ein í þessum heimi óáreitt.
Pabbi var að vinna og mamma er svo þreytt.
Ég er prinsessa í parketlagðri höll
en ósköp væri gaman, ef værum við hér öll.

Opinmynnt ég sest við sjónvarpið
því senn mun barnaefnið taka við.
Á skjánum er einhver að úrbeina mann.
Ætli ég megi horfa á hann?

Ég er ein í þessum heimi óáreitt.
Pabbi var að vinna og mamma er svo þreytt.
Ég er prinsessa í parketlagðri höll
en ósköp væri gaman, ef værum við hér öll.

[af plötunni Bragi Valdimar Skúlason og Memfis mafían – Gilligill]