Leiðin til San Diego

Leiðin til San Diego
(Lag og texti: Bubbi Morthens)

Ég veit um nætur sem taka öllum töfrum fram
og trú mín á ævintýrið lifir
undir ágústsólinni er engan skugga að finna.
Ættum við að keyra strax yfir
landamærin þar sem fótsporin finnast ennþá
falin milli rústanna ásamt bergmáli okkar beggja,
á þjóðvegi númer eitt
er öllum frekar heitt
og sólin hvítt leiftur milli hálfhrundra veggja.

Ég þekki konu sem tekur öllum töfrum fram
og ég trúi á hana eins og lífið.
Það er tíbrá yfir veginum og veðrið er ljúft
og vindurinn hvíslar: Svífið,
fljúgið yfir draumana sem engan dreymir lengur,
dansið við álfana sem fæstir fá að sjá,
á þjóðvegi númer eitt
er öllum frekar heitt,
við hlið mér er kona með augu svo ótrúlega blá.

Ég þekki manninn sem þráir þig ofar öllu
og ást hans er kyrrlát, hljóð,
undir fjólubláum himni er hlátur hans þýður
og  hafið er bláhvítt ljóð.
Þar sem vegurinn endar tekur eyðimörkin við,
efst á hóli rauðum má rústir ennþá sjá,
á þjóðvegi númer eitt
er öllum frekar heitt
og hjarta mitt fagnar þessari aldagömlu þrá.

Í þessari víðáttu af sandi kýs sólin að halla sér
og sögu okkar finnum við þar.
Bráðum koma skuggar þess liðna og leita
að lífinu sem eitt sinn var.
Það eru til nætur sem taka öllum töfrum fram
og ég tíni stjörnur úr hárinu þínu síða,
á þjóðvegi númer eitt
er öllum frekar heitt,
á malbikinu er timinn stundum lengi að líða.

[af plötunni Bubbi Morthens – Lífið er ljúft]