Líttu sérhvert sólarlag

Líttu sérhvert sólarlag
(Lag & texti: Bragi Valdimar Skúlason)

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt.
Sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt.
Hverju orði fylgir þögn – og þögnin hverfur allt of fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund
skaltu eiga við það mikilvægan fund
því að tár sem þerrað burt – aldrei nær að græða grund.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr.
Enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.
Því skaltu fanga þessa stund – því fegurðin í henni býr.

Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.
 
[m.a. á plötunni Hljómskálinn – ýmsir]