Lobbukvæði

Lobbukvæði
(Lag og texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Lobba gamla‘ er skrítin
og skelfilegt flón.
Hún skundar eftir götunni
og með henni Larfa-Jón.
Þau eru gráðug greyin
og geta étið flest
sem á vegi þeirra verður,
já vísast heilan hest.

Þau éta
illa lyktandi ullarsokk,
andrésblöð og spunarokk,
jötunuxa‘ og jólasvein,
járnkarl, hnífapör og stein.

Þau éta
glymskratta og gaddavír,
geðillan hund og tígrisdýr,
fagurbláa fiðursæng
og flugvél með brotinn væng.

Kerlingin er forljót
og karlinn eins og tröll.
Þau kjaga eftir veginum
langt upp á hæstu fjöll.
Þau eru sífellt soltin
og sækjast eftir því
sem mögulega má nú troða
maga þeirra í.

Þau éta
útskorna hillu og eldavél,
alfræðibækur, hanastél,
sandpappírsrúllu, sumarblóm
og sautján pör af inniskóm.

Þau éta
gúmmíslöngur, garðsláttuvél
og glerfínar styttur bryðja í mél,
bakpoka maula, borð og stól,
blekpenna og smíðatól.

Vömbin á þeim stækkar
og verður loks að
svo voðalegu ferlíki.
Ég veit ekki‘ eins og hvað!
Augun í þeim eru
svo eldrauð að sjá.
Já, Lobba gamla og Larfa-Jón
þau leika margan á.

Þau éta
gufustraujárn og gáfulegt peð,
Grýlu og Leppalúða með,
kaktus, púða, kínverska dós,
kerti, spil og vasaljós.

Þau éta
myglaða snúða og mjólkurkú,
mann og konu og allt þeirra bú,
hús og bíla, heilmörg skip
og hákarl með ljótan svip.

Þau éta
brotnar rúður og bixímat,
buxur, kjóla og vaskafat,
dúkkuhús og dót sem er
dreift um gólfið inni hjá þér.

Þau éta
ljósakrónur, lím og vax
og litla krakka þau gleypa strax
því er viturlegt að vara sig.
Þau vilja éta mig og þig.

[af plötunni Anna Pálína og Aðalsteinn Ásberg – Berrössuð á tánum: Bullutröll]