Nótt með þér

Nótt með þér
(Lag / texti: Ólafur Þórarinsson / Ómar Halldórsson)

Er nóttin leggst yfir lönd og sæ
og ljósin kvika á hverjum bæ
í rökkurblæ meðan regnið dvín
við reikum út fyrir garð.

Og hlaðan dimm verður huld og skjól
þeim hjörtum manna sem ástin fól,
að leita alls sem við lífsins eld
er lóð á gæfunnar veg.

Því allt þitt líf ertu‘ að byggja þér braut
að bruna um framhjá hverri þraut.

Svo njótum alls meðan næði gefst
því nálgast stundin er amstrið hefst
sem leiðir okkur um lífsins veg
þá leið sem öllum er beint.

Er nótt að morgni er neydd á svig
þú nöktum örmunum vefur mig.
Í draumsins yl meðan dagur rís
við dveljum saman í ró.

[m.a. á plötunni Ólafur Þórarinsson – Tímans tönn]