Nú mega jólin fara fyrir mér

Nú mega jólin fara fyrir mér
(Lag og texti: Bragi Valdimar Skúlason)

Ég vakna eftir furðulegt fyllerí,
ég fatta’ um leið að ég hef látið gabbast enn á ný.
Rauðþrútinn af saltáti og sykurinntöku.
Síðast vissi ég af mér í einrúmi með smáköku.
Ég segi bara eins og er, endum þessa dellu hér.
– Nú mega jólin fara fyrir mér.

Uppþembdur af uppseldum jólabjór.
Með allra þjóða kjötvörum ég drýgt hef stöðugt hór.
Gleyptur er hinn marglitaði makkintosssjóður
meir að segja gaurinn sem mér finnst alger viðbjóður.
Ólgar nú í æðum mér nær einvörðungu bráðið smér.
– Nú mega jólin fara fyrir mér.

Enn eitt jólaballaboðið sit
ég brosi gegnum kjötsvimann, og reynað sýna lit
en við mæjónessustækjuna er minningin svo hrein
af mömmu taka æðiskast og reyna að kyrkja jólasvein.
Kaldrifjuð hún kjötið sker, kaldur sviti um mig fer.
– Þá mega jólin fara fyrir mér.

Hér heima ríkir andleg hungursneyð
því ég horfði gegnum plottið hjá Arnaldi um leið.
Jólatréð í stofu húkir, herfilega trist.
Það hefur barr og lífsþorsta og mestallt silfurhárið misst.
Og áhangandi englaher hefur fyrirfarið sér.
– Nú mega jólin fara fyrir mér.

Ef þið sendið fleiri krúttleg kort.
með krökkum, misvelheppnuðum, sem mættu líða skort,
gríp ég þetta bréfafargan beint úr lúgunni
brenni svo allt heila klabbið, ásamt pakkahrúgunni.
Svo logar þetta gjafager, eins og Gene að skjóta sig í Cher.
– Þá mega jólin fuðra’ upp fyrir mér.

Þegar þetta frensí fjarar út.
Ég finn það losnar ögn um þennan kvíðarembihnút.
Tíni saman skrautið – og pínu væminn verð
og vildi’ ég yrði aftur lítið jólabarn í sleðaferð.
Uns raunveruleikinn réttir mér reikning fyrir desember.
– Þá mega jólin bara fokka sér.

[af plötunni Baggalútur – Jólaland]