Nú mega jólin koma fyrir mér

Nú mega jólin koma fyrir mér
(Lag / texti: erlent lag / Bragi Valdimar Skúlason)

Á fyrsta sunnudegi aðventunnar
ég ek til kaupmannsins í einum rykk.
Því þó að fjárhirslurnar gerist grunnar
ég geri vel við mig í mat og drykk.
Ég kaupi sætabrauð og súkkulaði,
súpur og ávexti og kjöt og smér.
Klyfjaður góssi burt ég held með hraði
og hleð í skottið allskyns gúmmelaði.
– Þá mega jólin koma fyrir mér.

Á öðrum sunnudegi aðventunnar
alhliða hreinsunarstarf á sér stað.
Þá söngperlur ég söngla, ýmsum kunnar
og síðan læt ég renna í funheitt bað.
Þá allar spjarirnar ég af mér reyti
og öllum deginum við þvotta ver.
Ég skrúbba tærnar, skegg og lubba bleyti.
Ég skef úr eyrum, svonað mestu leyti.
– Þá mega jólin koma fyrir mér.

Á þriðja sunnudegi aðventunnar
andlegu hliðinni ég geri skil.
En til að virka skulu viskubrunnar
sko vera rakir, eða þar um bil.
Það stoðar lítt að sitja einn með ekka;
örlögum heimsins velta fyrir sér.
En ég verð heimsins mesta mannvitsbrekka
á meðan ég fæ bara nóg að drekka.
– Þá mega jólin koma fyrir mér.

Á fjórða sunnudegi aðventunnar
ég æði um húsið til að gera fínt.
En skreytingarnar eru ansi þunnar
því árans skrautið virðist mest allt týnt.
Ég skvetti sápuvatni á gólf og glugga
og gref upp nokkuð heillegt sængurver.
Við bústnum rykmaurum ég reyni að stugga
og ryð svo þvottinum í næsta skugga.
– Þá mega jólin koma fyrir mér.

Loks þegar aðfanganna dag að drífur
ég dreg fram spariföt og flibbahnapp.
Svo þegar skyrtukraginn stendur stífur
ég stari í spegilinn og gef mér klapp.
Því jólin eru tími til að þakka
og taka ofan fyrir þeim sem ber.
Meðan ég hef matarögn að smakka
og meðan ég fæ risavaxinn pakka.
– Þá mega jólin koma fyrir mér.

[m.a. á plötunni Sigurður Guðmundsson og Memfis mafían – Nú stendur mikið til]