Nú sefur jörðin

Nú sefur jörðin
(Lag / texti: Þorvaldur Blöndal / Davíð Stefánsson)

Nú sefur jörðin sumargræn.
Nú sér hún rætast hverja bæn
og dregur andann djúpt og rótt
um draumabláa júlínótt.

Við ystu hafsbrún sefur sól,
og sofið er í hverjum hól.
Í sefi blunda svanabörn
og silungur í læk og tjörn.

Á túni sefur bóndabær,
og bjarma´ á á þil og glugga slær.
Við móðurbrjóstin börnin fá
þá bestu gjöf sem lífið á.

Og áin líður lygn og tær,
og lindin sefur perluskær.
Í dvala hníga djúpin hljóð
og dreymir öll sín týndu ljóð.

Í hafi speglast himinn blár.
Sinn himinn á hvert daggartár.
Í hverju blómi sefur sál,
hvert sandkorn á sitt leyndarmál.

Nú dreymir allt um dýrð og frið
við dagsins þögla sálarhlið,
og allt er kyrrt um fjöll og fjörð,
og friður drottins yfir jörð.

[m.a. á plötunni Gradualekór Langholtskirkju – Ég bið að heilsa]