Sögin
(Lag og texti: Kristján Hreinsson)
Ég heyrði eitt sinn lítið lag
sem leikið var á sög,
það breytti nótt í bjartan dag,
var betra en önnur lög.
Og hljómur þess var hreinn og tær,
það hafði tök á mér,
því það var eins og fugl sem fær
að fljúga hvert sem er.
Fallegt eins og önnur lög
og ekki fór það hljótt,
því til að leika lag á sög
þarf lífsins mikla þrótt.
Víst lét hljóma himneskt lag
höndin traust og sterk
því kænn er sá sem kann það fag
að koma ýmsu í verk.
Ég þurfti að hlusta í þetta sinn,
já það er alveg rétt,
þar puðaði hann pabbi minn
við planka úti á stétt.
Hann pabbi var til verka fús
svo var hann laginn mjög,
hann bjartsýnn vildi byggja hús
og brúkaði þá sög.
Í heiminum ég hlýt í dag
að heyra fögur lög,
en ennþá man ég lítið lag
sem leikið var á sög.
[af plötunni Barnalög: Mig langar að læra – ýmsir]