Stjörnur

Stjörnur
(Lag og texti: Ólafur Þórarinsson)

Ef lít ég til baka um bugðótta slóð
þá bærast í huga mér örlaga ljóð
um það sem fór miður og mistökin stór
og margt sem um ævina aflaga fór.

En gleymi að þakka allt gott sem ég fékk
er gáleysislega um veginn ég gekk,
oft valdi þá leið sem mann löngunin ber
og léttust var mér.

Sérhver hugsun er úr fylgsninu flýr
fyrr en varir til baka hún snýr.
Því læt ég ei bölmóðinn byrgja mér sýn
meðan birtir af degi og vorsólin skín
og verkin öll bíða sem bjástra þarf við
og búa mér frið.

Laus úr viðjum nú fer ég á flug,
fjötrum hugans ég vísa á bug.
Allur minn auður sem er mér svo kær
er ástin sem lifir í hjartanu tær
og verkin sem bíða og bjástra þarf við
og búa‘ okkur frið.

Því lítið ég breyti sem lifað ég hef
en lagað þó get ég mín framtíðar skref
og hlúð að því djásni sem dýrmætast er
þeim demöntum sem eru kærastir mér.
Já, blikandi stjörnur sem lýsa mér leið
og lækna öll ´sar þar sem áður mig sveið.
Nú feta ég alsæll á enda minn veg
meðan andann ég dreg.

[af plötunni Ólafur Þórarinsson – Tímans tönn]