Þar sem gemsarnir aldrei þagna
(Lag og texti: Bubbi Morthens)
Út úr húminu kemur dauðinn, kveður þig á sinn fund
köldum rómi tilkynnir: Upp runnin er þín stund.
Fyrir utan bíður djöfullinn og brosir undirblítt,
bugtar sig og hneigir með hárið kolsvart, sítt.
Þú sest inn í limmuna sem leggur hljóð af stað,
við stýrið situr drýsill sem hatar orðið bað.
Þú spyr: Er ég dauður eða dreymir mig þetta bull?
Og hann svarar: Drekku vinur, þín flaska er ennþá full.
Í helvíti er svört sól, alkóhól, allra handa kynlífstól,
eiturlyf sem brenna þig upp til agna.
Ríki mitt er kingsæs extralards júmbó túrbó djúsí nær.
Í helvíti gemsarnir aldrei þagna.
Inni í bílnum finnst þér hitinn orðinn ískyggilega hár
í speglinum sérðu framan í þig, þú ert að verða blár.
Þú hneppir frá þér skyrtunni og skilur hver staðan er,
skjálfandi þurrkar svitann framan úr þér.
Þið keyrið inn í myrkrið, moldarfnykur í lofti er,
martröðin vælir stjórnlaus í höfðinu á þér.
Hinn fallni engill hvíslar í eyrað ofurlágt:
Engin leið til baka, það er bara þessi átt.
Í helvíti er svört sól, alkóhól allra handa illskufól,
haltu áfram að bölva og ragna.
Vertu velkominn ljúfurinn líkkaldi stúfurinn.
Í helvíti gemsarnir aldrei þagna.
Þér er boðið ukk á kókaín og útglennt rökuð klof
og endalausa fullnægingu þar til þú færð flog.
Hér enda engar nautnir, nóttin er endalaus,
hann nístir þig sársaukinn og hjartað í þér fraus.
Hér áttu nóg af seðlum sem þú getur aldrei eytt.
Engan færðu svefninn, hér er allt svo rakt og sveitt.
Hér er hann harður eins og grjót, gýs eins og hver.
Gráttu núna gæskurinn, þín staða vonlaus er.
Í helvíti er svört sól, alkóhól, ormétin barnaból,
þín bíður djöfuls ofboðsleg pína.
Þín versta martröð við þér gín, bróðir reyndu að njóta þín.
Í helvíti er ætíð opn gemsalína.
Það er furðulegt en þú finnur tíminn stendur kyrr.
Þú ert fastur í lókali sem hefur engar dyr.
Hér er enginn endir, hér endar ekki neitt,
of mikið af öllu og þú getur engu breytt.
Þú veist að þú þarft að þjóna húsbónda þínum vel.
Þú valdir í lifanda lífi að ráða þig hjá Hel.
Of seint að hrópa á hjálp, þín bíður þetta bál.
Fyrir löngu síðan seldir þú dýrinu þína sál.
Í helvíti er svört sól, alkóhól, allra handa morðtól.
Helvíti er við allra hæfi.
Við sækjum þig í leigubíl, leyfum þér að halda þínum persónulega stíl.
Í helvíti dugar gemsinn heila mannsævi.
[af plötunni Bubbi Morthens – Sól að morgni]