Þrír kettlingar

Þrír kettlingar
(Lag / texti: Ólafur Gaukur Þórhallsson / Kristján frá Djúpalæk)

Þrír kettlingar sem kúra þar,
í kór nú væla: Sjá,
við höfum tapað hönskunum.
Ó, mamma, mamma, mamma, mamma, mjá.

Hafið þið týnt hönskunum?
Ó hvílíkt ólán svei.
Ei gef ég ykkur graut í kvöld.
Nei, nei, nei, nei, nei.

Þrír kettlingar nú kætast þar,
í kór þeir skríkja: Sjá,
við höfum fundið hanskana.
Ó, mamma, mamma, mamma, mamma, mjá.

Þið hafið fundið hanskana
og hrós þið skuluð fá.
Nú gef ég ykkur graut í kvöld.
Já, já, já, já, já.

Þrír kettlingar nú kveina þar
í kór: Ó, þvílíkt. Sjá,
við höfum blettað hanskana.
Ó, mamma, mamma, mamma, mamma, mjá.

Þið hafið blettað hanskana,
að heyra þetta. Svei.
Ei mun ég veiða mús í kvöld.
Nei, nei, nei, nei, nei.

Þrír kettlingar nú kætast þar,
í kór þeir skríkja: Sjá,
við höfum þvegið hanskana.
Ó, mamma, mamma, mamma, mamma, mjá.

Þið hafið þvegið hanskan,
og hrós ei spara má.
Nú mun ég skammta mýs í kvöld.
Já, já, já, já, já.

[af plötunni Hanna Valdís – Tólf ný barnalög]