Útsýnið er fallegt

Útsýnið er fallegt
(Lag og texti: Bubbi Morthens)

Þegar hverfa skýin og skuggar verða langir
og skolgráar blokkir fá lit,
þá stari ég út um gluggann, get ekki annað
en gapað, jú alveg bit.
Esjan er komin í klæðin sín fínu,
kvenleg er hún, sjáðu þessa línu.
Útsýnið er fallegt héðan þar sem ég sit.

Kímin þú situr úti í sólinni og brosir
með sumarið í augunum og á himni ekkert ský,
börnin sofa ennþá og útvarpið það malar.
Allt sem mér er kærast er þessu húsi í.

Þegar hverfur birtan og bláleita húmið
birtist augum þínum í
og þú ilmar af sólskini, sjó og þara,
sumarnóttin er mjúk og hlý.
Ástin mín er komin í klæðin sín fínu,
kvenleg er hún, sjáðu þessa línu.
Útsýnið er einstakt þar sem ég bý.

Silkimjúkt þú raular í rökkrinu og brosir,
réttir mér lófann og hvíslar já,
í brjósti mínu er friður sem fyllir mig gleði
og ég fagna hverjum degi sem ég vakna þér hjá.

[af plötunni Bubbi Morthens – Lífið er ljúft]