
Stuðbandalagið
Stuðbandalagið var danshljómsveit sem lék á dansleikjum um land allt við ágætan orðstír á árunum í kringum síðustu aldamót.
Stuðbandalagið var stofnað í Borgarnesi árið 1994 og gerði alltaf út þaðan, það voru þeir Guðjón Guðmundsson gítarleikari og Indriði Jósafatsson hljómborðsleikari sem stofnuðu sveitina og með þeim voru í upphafi þeir Ásgeir Hólm saxófónleikari, Bragi Björnsson bassaleikari og Pjetur Pjetursson trommuleikari en þeir höfðu allir nema Indriði starfað saman í hljómsveitinni Goðgá áður.
Meðlimaskipan Stuðbandalagsins var svo til óbreytt þau fjórtán ár sem sveitin starfaði en þó urðu tvívegis trommuleikaraskipti í henni, Orri Sveinn Jónsson leysti Pjetur trymbil af hólmi og lék með henni í nokkur ár en síðan tók Sigurþór Kristjánsson við kjuðunum og starfaði með þeim félögum þar til sveitin hætti störfum árið 2008. Talsvert var þó um að afleysingamenn spiluðu með sveitinni, og einnig komu fjölmargir gestasöngvarar fram með henni meðan hún starfaði, hér má nefna söngvara eins og Önnu Vilhjámsdóttur, Herbert Guðmundsson, Ragnar Bjarnason, Margréti Eir, Mjöll Hólm o.fl.

Stuðbandalagið
Stuðbandalagið lék mikið á Suðurnesjunum en einnig töluvert á höfuðborgarsvæðinu s.s. á Hótel Íslandi, Kaffi Reykjavík og Kringlukránni, og reyndar lék sveitin einnig t.d. á Oddvitanum á Akureyri. Hinn eiginlegi heimavöllur Stuðbandalagsins var þó Borgarfjörðurinn og sveitin lék þar víða í hinum ýmsu félagsheimilum, hún lék t.a.m. um margra ára skeið í Dægurlagakeppni Borgfirðinga á Gleðifundi Ungmennafélags Reykdæla.
Þess má geta að Stuðbandalagið sendi frá sér eina geisladiskasmáskífu, það var sumarið 1997 en þá lék sveitin á Landsmóti Ungmennafélags Íslands sem haldið var í Borgarnesi, og annaðist hún flutning á landsmótslaginu sem bar heitið Allir á landsmót.
Stuðbandalagið starfaði sem fyrr segir til ársins 2008 en hætti þá störfum.


