Stuðbandalagið (1995-2011)

Stuðbandalagið var danshljómsveit sem var mjög virk um að minnsta kosti fimmtán ára skeið en hún lék á dansleikjum um land allt við ágætan orðstír.

Stuðbandalagið var stofnað í Borgarnesi árið 1995 að öllum líkindum og gerði alltaf út þaðan, lék t.a.m. um margra ára skeið í dægurlagakeppni Borgfirðinga á Gleðifundi Ungmennafélags Reykdæla en sveitin fór mjög víða um völl í spilamennsku sinni og lék töluvert t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu.

Heimildir um Stuðbandalagið eru ekki miklar, svo virðist sem hún hafi upphaflega verið eins konar hljómsveit Önnu Vilhjálmsdóttur söngkonu en hún hafi svo hætt með sveitinni en sungið síðar með henni sem gestasöngvari, sem einnig Herbert Guðmundsson gerði stöku sinnum. Annars virðast meðlimir sveitarinnar hafa verið þeir Ásgeir Holm saxófónleikari, Bragi Björnsson bassaleikari, Guðjón Guðmundsson söngvari og gítarleikari, Indriði Jósafatsson hljómborðsleikari og Pjetur Pjetursson trommuleikari. Líklegt hlýtur að teljast að fleiri hafi komið við sögu Stuðbandalagsins allan þann tím sem hún starfaði en hún var vísast enn starfandi árið 2011 þótt minna hafi farið fyrir henni þá síðustu árin á undan.

Þess má geta að Stuðbandalagið sendi frá sér eina geisladiskasmáskífu, það var sumarið 1997 en þá lék sveitin á Landsmóti UMFÍ sem haldið var í Borgarnesi, og annaðist hún flutning á landsmótslaginu sem bar heitið Allir á landsmót.

Efni á plötum