
Stúdíó Ris
Hljóðupptökuverið Stúdíó Ris var starfrækt um nokkurra ára skeið undir lok síðustu aldar á Norðfirði og voru nokkrar plötur hljóðritaðar þar af heimamönnum.
Stúdíó Ris var staðsett í risi í húsnæði Ennco í Neskaupstað og hlaut þaðan nafn sitt en líklega var fyrirtækið í grunninn tölvufyrirtæki og hljóðversvinnan hluti þeirrar starfsemi. Það voru þeir feðgar Þórður Óli Guðmundsson og Hafsteinn Þórðarson ásamt Pjetri Hallgrímssyni (í Tónspili) sem settu Stúdíó Ris á laggirnar haustið 1993 en Þröstur Rafnsson tók svo fljótlega við af Pjetri. Strax árið 1994 fóru hljómsveitir ungra tónlistarmanna á Norðfirði og nágrannabyggðalögunum að taka upp demó í hljóðverinu, þar má nefna sveitir eins og Sinn fein og Síva en svo kom að því að hljómsveitin Döðlurnar tóku upp plötu sína, Bara rugl en hún kom út snemma á árinu 1995. Í kjölfarið voru nokkrar aðrar plötur hljóðritaðar í Stúdíó Ris, þar má nefna safnplöturnar Seyðisfjörður 100 ára, Í laufskjóli greina og Nesrokk, Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Austfirskir staksteinar, Niturbasarnir – Ugludjöfullinn og Sólstrandargæjarnir – Sólstrandargæjarnir en síðast talda platan hafði m.a. að geyma stórsmellinn Rangur maður. Í mörgum tilvikum annaðist Stúdíó Ris einnig hönnun plötuumslaga, samskipti við fjölföldunaraðila og aðra vinnu í tengslum við útgáfu platnanna án þess þó að vera útgáfufyrirtæki.
Stúdíó Ris starfaði líklega til ársins 1998 en þá voru upptökugræjurnar seldar og húsnæðið mun hafa verið notað eftir það sem æfingahúsnæði hljómsveita og fleiri plötur hafa verið teknar upp í risinu á síðustu árum þótt Stúdíó Ris heyrði sögunni til.